Taugadeildin var stofnuð haustið 1980 af þeim Óskari Þórissyni og Árna Daníel Júlíussyni. Báðir höfðu verið í fyrstu pönkhljómsveitum landsins, Fræbbblunum og Snillingunum. Óskar tók að sér söng og Árni Daníel bassaleik. Saman sömdu þeir nokkur lög, keyptu sér trommuheila og fengu aðstoð Arnórs Snorrasonar á gítar.

Með þessa liðsskipan lék hljómsveitin nokkrum sinnum opinberlega, meðal annars á Laugarvatni og í Kópavogsbíó. Veturinn 1980/81 var Þorsteinn Hallgrímsson ráðinn hljómborðsleikari og eru þeir þrír, Óskar, Árni Daníel og Þorsteinn nú með í endurreistri Taugadeild. Arnór varð að hætta sökum anna í Fræbbblunum og í hans stað kom Óðinn Guðbrandsson. Loks bættust í hópinn Kormákur Geirharðsson trommuleikari og Egill Lárusson söngvari. Með þessa liðsskipan lék Taugadeildin á fjölmörgum tónleikum veturinn og vorið 1981, meðal annars með Utangarðsmönnum á Hótel Borg, með Any Trouble og Bara Flokknum í Laugardalshöllinni, með Purrki Pillnikk víðs vegar og loks á Annað hljóð í strokkinn, stórnýbylgjutónleikum í Laugardalshöllinni í júní 1981.

Sumarið 1981 tók hljómsveitin upp fjögurra laga 45-snúninga plötu á vegum Fálkans. Brestir voru hins vegar komnir í samstarfið og haustið 1981 hætti hljómsveitin starfsemi, rétt áður en platan kom út. Platan hlaut afar góðar viðtökur og þykir enn með bestu EP-plötum frá þessum tíma.

Hljómsveitin reyndist þó ekki alveg hætt starfsemi, því 24 árum síðar, árið 2004, kom hún saman á ný og starfaði næstu tvö ár, hélt nokkra tónleika og samdi nýtt efni. Síðan lagðist hún í dvala á ný.

Copyright 2008 Árni Daníel Júlíusson, Design by Rex Jones / Axel Kristinsson / Ari Júlíus Árnason