Centre for Agrarian Historical Dynamics

Ný bók um jarðeignir kirkjunnar frá kristnitöku til siðaskipta

cover

Út er komin bókin Jarðeignir kirkjunnar 1000-1550 og tekjur af þeim eftir Árna Daníel Júlíusson. Útgefandi er Centre for Agrarian Historical Studies, CAHD. Í bókinni birtast niðurstöður rannsókna á hinum ýmsu jarðargóssum sem kaþólska kirkjan kom á fót hér á landi á þessu tímabili. Fjallað er um hvert jarðargóss fyrir sig, þróun þeirra og stækkun og þróun tekna af hverju góssi. Þrír meginkaflar eru í bókinni, og fjallar sá fyrsti um klaustragóss, annar kafli um jarðagóss biskupsstólanna og sá þriðji um jarðagóss kirkjuléna, kirkjustaða eins og Odda, Grenjaðarstaðar og fleiri sem áttu mikið af jarðeignum. Þá er einnig gerð nokkur grein fyrir þróun í jarðeignum kirkjustaða, sem oftast áttu eina til þrjár jarðir.

Í bókinni birtast kort sem sýna þróun í landfræðilegri dreifingu þessara jarðagóssa. Kortin eru alls 60 að tölu. Bókin byggir á rannsóknum sem styrktar voru af Kristnihátíðarsjóði, Biskupsstofu, Hagþenki og Starfssjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna. Styrkur sem veittur var af síðastnefnda sjóðnum á s.l. ári gerði kleift að ganga frá bókinni til útgáfu.

Bókin er 247 síður og fæst m.a. hjá Kirkjuhúsinu, Laugavegi 31, eða með því að senda pöntun á póstfangið centerahd@gmail.com Verð er kr. 3.990.